154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:45]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Launaliðurinn er einn stærsti útgjaldaliður ríkisins, um þriðjungur útgjalda, og mun hærri hjá sveitarfélögum enda grunnvelferðarþjónustan mannaflsfrek. Við vitum líka að launahlutfall er hátt hjá fyrirtækjum landsins og partur af ástæðunni er sú að þegar velferðin stendur ekki undir grunnkjörum fólks leitar það í ríkara mæli til vinnuveitanda til að styrkja kjörin. Þegar húsnæðiskostnaður rýkur upp úr öllu valdi, þegar barnabætur eru í lágmarki og leiguverð hátt, þegar það þarf að minnka við sig starfshlutfall til að sinna öldruðum foreldrum, því heimahjúkrun er vanfjármögnuð og hjúkrunarrými vandfundin, þá snýr fólk sér að launaliðnum.

Undanfarna daga, eða reyndar undanfarna mánuði ef við teljum allar kynningar ríkisstjórnarinnar á þessum sömu tölum með, hefur verið rætt um hið 17 milljarða kr. aðhald. Skoðum eitt samhengi: Kostnaður ríkissjóðs vegna launahækkana í fyrra var 25 milljarðar kr. Það voru tæplega 9 milljarðar umfram það sem upphaflega var búist við. Á næsta ári er gert ráð fyrir 20 milljörðum kr. vegna launahækkana. Við þetta bætist svo annað eins vegna hærri verðbólgu sem nú vindur upp á sig. Þarna má margtelja þessa 17 milljarða sem hæstv. ríkisstjórn kynnir nú sem aðgerðir í aðhaldi.

Punkturinn minn er þessi, virðulegi forseti: Það er til einskis að ætla að setja velferðina á ís til að hagræða í rekstri. Ríkið fær þetta bara í fangið í hærri launakröfum og verðlagshækkunum og eftir situr hinn almenni launamaður með verri velferð og illa rekið ríki. Því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi yfirlýsinga forystufólks verkalýðshreyfingarinnar um að ekkert sé í þessum fjárlögum til að styðja við kjarasamninga, hvort hann telji skynsamlegt að fara inn í veturinn með þetta upplegg, hvort við eigum von á frekara hringli með fjárlög núna í aðdraganda 2. umr. og hvort við munum ekki sjá endanlega útgáfu fyrr en rétt fyrir samþykkt fjárlaga.